

,,Hindranir eru alltaf fyrir hendi en ég held að við séum oft sjálfum okkur verst. Ég hef stundum talað mig niður og ekki þorað að taka áhættu, ekki þorað að segja: Já ég get þetta, jafnvel þótt ég viti það vel með sjálfri mér. Eða ekki þorað að segja: Þetta er starfið sem ég á að fá. Það er eitt af því sem lærist með aldrinum. Með því að skilja sjálfan sig betur gerir hver og einn sér betur grein fyrir í hverju hann er raunverulega slakur og líka hvar hæfileikarnir liggja.“
Foreldrar Auðar eru fyrirmyndir hennar. „Pabbi er smiður en mamma er lektor við kennaradeild HÍ. Þau eru óhrædd við að takast á við nýjar áskoranir og ná lengra á sínu sviði. Þau staðna ekki heldur reyna meira á sig til að gera betur og vilja frekar takast á við ný og fjölbreytt verkefni en að vinna sama verkið hvað eftir annað.“
Hvaða ráð á hún fyrir ungt fólk sem er að velta fyrir sér hvað það á að læra og starfa við? „Ekki hugsa um hvað fagið eða starfið skili miklum peningum. Ekki hugsa um hvað öðrum finnst um hvað þú gerir. Þetta snýst um það sem eftir er lífsins. Finnið hvað ykkur langar til þess að gera. Nauðsynlegt er að það sé skemmtilegt. Fjölmargir fara í nám sem þeir halda að þeir eigi að fara í en átta sig síðar á því að það var ekki rétt, því þeir fylgdu ekki eigin sannfæringu.“ Aldrei nokkurn tíma hafi það hvarflað að henni að hennar nám leiddi hana til starfs hjá fyrirtæki sem meðal annars framleiðir snyrtivörur.
„Lífið kastar manni til og frá og ýtir ýmsu að okkur sem við hefðum aldrei látið okkur detta í hug. Við verðum að vera opin fyrir því af því að nýjungar geta verið ótrúlega skemmtilegar ef við erum tilbúin til að takast á við þær.“