Starf Áróru og teymis hennar felst í hönnun á sílíkonhulsu, harðri hulsu og lásum sem tengja gervifótinn við stúfinn þegar fólk hefur misst fót. „Suma daga sit ég við tölvuna og teikna, aðra daga klíni ég mig út í sílíkoni og prófa að búa til frumgerðir (e. Prototypes). Ég er ánægð með hvað starfið er fjölbreytt. Bæði hönnum við nýjar vörur og betrumbætum gamlar. Einnig erum við með nýjar hugmyndir sem koma þarf á koppinn en mörg skref þarf að stíga til að koma nýrri vöru á markað.


Dagleg störf mín felast að miklu leyti í samskiptum við fólk; við teymið mitt en við ræðum hugmyndir og tökum ákvarðanir, við rennismiðina sem aðstoða okkur við gerð frumgerða (e. Prototypes), við notendur sem prófa fyrir okkur búnað og við stoðtækjafræðinga þeirra og fólkið sem framleiðir vöruna fyrir markaðinn.“

Skemmtilegasti þátturinn er að hitta fólkið sem notar vörurnar og prófa væntanlegar vörur að sögn Áróru. Þegar við spjöllum saman er hún og hennar teymi að vinna að nýrri sílíkonhulsu. „Margir notendur tala um að ef tengingin við gervifótinn er ekki nógu góð, þá skipti engu máli hversu góður gervifóturinn sjálfur er. Mikilvægt er að þessi tenging sé vel úr garði gerð. Mikil hvatning er fólgin í því að vinna við eitthvað sem bætir líf fólks. Þess vegna er ég líka ánægð að vinna í þessum geira. Ég tel mikilvægt að fólk velji sér starfsferil sem hentar því, en ekki eitthvað sem aðrir segja því að gera. Öllu skiptir að finna hvað þér finnst áhugavert, eltast við það og finna svo ánægjuna í því sem þú þarft að gera.“