Anna Soffía Hauksdóttir Aðalheiðar -ljósmynd Eva Lind

Jafnrétti var mikið í umræðunni þegar Anna Soffía óx úr grasi. Hún var ákveðin í að geta séð fyrir sér sjálf, ,,ég vildi hafa góða starfsmenntun, góða starfsmöguleika og síðast en ekki síst áhugavert starf.“

…Anna Soffía ætlaði einungis að fara út í meistaranám, en að því loknu bauðst henni að vera áfram við skólann í kjölfar góðs gengis á prófi sem nefnt var General Exam. „Prófið var tekið í lok meistaranámsins og ef einkunnin var nógu góð var það aðgöngumiði að doktorsnámi. Ég hafði góðan grunn frá HÍ og var svo heppin að kynnast kínverskum námsmanni sem hafði nýverið tekið prófið.


Kínverjarnir voru stór hópur sem hafði safnað saman glósum og bókum.“ Kínverski kunninginn lánaði Önnu Soffíu glósurnar, hún lá yfir þeim í nokkrar vikur, tók prófið og gekk vel. „Ég ákvað svo í raun mjög hægt og rólega að fara í doktorsnám. Ég ákvað að vera aðeins áfram og taka nokkra kúrsa og þess háttar. Ég var áfram á launum og með niðurfelld skólagjöld, ég gat því gert þetta án aukakostnaðar sem var freistandi. Þeir leyfðu mér að komast upp með að segja að ég ætlaði að vera eitthvað áfram og sjá til. Svo var allt svo gott og gaman. Eiginlega var það ekki fyrr en síðasta árið þegar ég var búin að finna mér efni og komin á fleygiferð í doktorsverkefnið, að ég var tilbúin að gefa út yfirlýsingu um það. Ekkert er öruggt í doktorsnámi fyrr en búið er að leysa viðfangsefni sem ekki hefur verið leyst áður og allt er klárt og vörnin afstaðin.“