

Framhaldsskólasaga Önnu er dálítið flókin að hennar sögn. Hún hóf nám í Fjölbraut í Garðabæ en fór á eftir vinkonum sínum yfir í Menntaskólann í Reykjavík því hún saknaði þeirra. Þar hóf hún nám um áramót í 3.bekk, lauk vorprófunum og tók jólaprófin í endurtektarprófum um vorið og las þær greinar með náminu að vori. Anna segir það hafa verið smá átak en hafi tekið fljótt af. Þá var hún búin að ná stöllum sínum.
Eftir fjórða bekk, eða annað árið í MR, flutti fjölskyldan til Bandaríkjanna. „Þegar ég kom til baka var allur hópurinn að fara í sjötta bekk og mig langaði ekki að vera í fimmta bekk,“ segir Anna Kristín og hlær, „svo ég lauk náminu við Fjölbraut í Garðabæ og náði að ljúka námi aðeins önn á eftir jafnöldrunum og brautskráðist um jól 1998.“
…Foreldrar Önnu eru hennar fyrirmyndir varðandi lífsgildin. „Þau kenndu mér að ég gæti gert allt sem ég vildi en lögðu líka áherslu á að gera það vel. Svo eru í kringum mig margar sterkar konur sem vita hvað þær vilja og standa með sjálfum sér. Ég á þrjár systur og margar góðar vinkonur sem ég er alltaf að læra af.“